Vaxtar hugarfar & fast hugarfar

Hvernig tekst fólk á við krefjandi verkefni og að gera mistök? Rannsóknir hafa leitt í ljós að hugarfar fólks skiptir þar mestu máli. Helst stendur upp úr tvennskonar hugarfar, annars vegar það sem kallast fast hugarfar (e. fixed mindset) og hins vegar vaxtar hugarfar (e. growth mindset). Það sem greinir á milli þessara hugarfara er hvernig þú lítur á sjálfan þig og eiginleika þína.

Mistök eru mjög ólík upplifun eftir því hvort að þú sért með fast eða vaxtar hugarfar gagnvart eiginleikunum sem þú notaðir í aðstæðunum sem þú varst í. Tökum dæmi: Þú ert í skóla, skilar inn verkefni og færð falleinkun fyrir það. Það er tvennt í stöðunni:

Viðbrögð 1: Þú skoðar verkefnið, talar við kennarann og sérð hvar þú hefðir geta gert betur og getur gert betur næst. Þú reynir að draga lærdóm af fallinu og það verður hvatning fyrir þig til að jafnvel skoða hvort þú gætir notað aðrar aðferðir til að læra – t.d. undirbúið þig fyrr, látið lesa yfir fyrir þig og þess háttar.

Viðbrögð 2: Þú treður verkefnið ofan í tösku, forðast að tala við kennarann og talar aldrei aftur um þetta heimskulega verkefni. Það má engin vita að þú féllst, enda var þetta glatað verkefni og glataður kennari. Innsti inni varstu að fá staðfestingu á að þú ert glataður / glötuð.

Fyrri viðbrögðin eru dæmi um vaxtarhugarfar, eiginleikar þínir geta þróast og þú hefur getuna til þess að vinna með þá. Frammistaða þín segir ekkert um þig sem manneskju eða hæfni þína, hún segir til um hvar sóknarfæri eru til að gera betur ef þú vilt það. Vaxtarhugarfar er hugarfar þess að eiginleikar þínir geti vaxið. Frammistaða þín er í raun stöðumat og með fyrirhöfn þá má bæta frammistöðu og auka hæfni.

Seinni viðbrögðin eru dæmi um fast hugarafar, eiginleikar þínir eru fastir og þetta var staðfesting á að þú ert ekki klár eða góð námsmanneskja. Lítið við því að gera að þínu mati og vænlegast að skipta bara um leið eða beina orkunni annað. Fast hugarfar er það hugarfar að eiginleikar þínir eru fastir og óbreytanlegir. Frammistaða þín er vitnisburður um þá eiginleika og staðfestir annað hvort hæfni þína eða vanhæfni.

Birtingarmyndir hugarfars

Sumt fólk virðist sjá og mæta krefjandi aðstæðum sem tækifæri. Það virðist vera að það fái kraft og hlakki til að takast á við verkefni þar sem reynir á þau. Þau líta svo á að með fyrirhöfn geti það ræktað eiginleika sína, þau rækta gáfur sínar og hæfni. Þau líta á mistök sem lærdóm og eru ekki hrædd við að læra meira. Þetta er birtingarmynd vaxtar hugarfars (e. growth mindset).

Annað fólk lítur á gáfnafar öðrum augum, að það sé meitlað í stein og að annað hvort ertu vel gefin eða ekki. Mistök eru því staðfesting á að þú sért ekki með „þetta“, ef svo má að orði komast. Þetta fólk er eins og gefur að skilja, mjög hrætt við að gera mistök og þegar að þau gera þau þá er það áfellisdómur á þau. Þetta er birtingarmynd fast hugarfars (e. fixed mindset).

Annað hvort eða?

Við erum öll með mismunandi hugarfar gagnvart mismunandi hlutum í lífi okkar í mismunandi aðstæðum. Við getum verið með vaxtarhugarfar í ákveðnum aðstæðum, opin fyrir að læra meira og að bæta frammistöðu okkar. Þá tökum við gagnrýni vel og erum tilbúin til að skoða og rýna í frammistöðu okkar, við rýnum til gagns. Við erum tilbúin til að leggja á okkur auka vinnu til að ná framförum og eflumst þegar á móti blæs. Við vitum að það kostar fyrirhöfn að ná þeim árangri sem við sækjumst eftir. Svo getum við verið með fast hugarfar í öðrum aðstæðum, þá erum við ekki tilbúin til að leggja aukalega á okkur og þegar á móti blæs verðum við örg og upplifum vanmátt. Við kennum jafnvel öðrum um að frammistaða okkar sé ekki eins og við áttum von á. Við gerum kröfur til okkar um að við „eigum“ að geta/kunna þetta og skiljum ekki af hverju okkur tekst það ekki.

Og hvað?

Það skemmtilega við að geta greint mismunandi hugarfar okkar hverju sinni er að við getum þá leikið okkur meðvitað með hvaða hugarfari við nálgumst verkefnin sem við stöndum frammi fyrir. Stundum föttum við ekki hugarfar okkar fyrr en við mætum mótlæti eða okkur verður á. Ef við verðum örg og fyllumst vanmætti, teljum að þetta sé ekki fyrir okkur mögulega, þá er það merki fast hugarfars okkar gagnvart aðstæðunum. Ef við hins vegar lítum á það sem áskorun að bæta frammistöðu okkar, þá er það merki um vaxtar hugarfar okkar gagvart aðstæðunum.

Með því að spyrja okkur hvaða lærdóm við getum dregið af reynslu okkar og mistökum þá opnum við huga okkar fyrir vaxtar hugarfari. Hér á við orðatiltækið “æfingin skapar meistarann”, sem var pottþétt sagt af einstaklingi með vaxtar hugarfar í þeim aðstæðum sem það spratt upp í. Við æfum okkur með því að sjá hvar sóknarfærin liggja og hvar við getum bætt okkur. Við getum meira að segja getum ýtt öðrum í áttina að vaxtar hugarfarinu með því að setja hlutina upp sem æfingu eða lærdómsferli.

 

Þessi færsla er innblásin af bók Carols S. Dwecks, “Mindset: The new psychology of success”