Framtíðarsýnin

Hvar viltu vera eftir 5 ár, eða 10 ár, eða 15 ár?

Það er hollt að láta sig dreyma. Hvað er framtíðarsýn annað en draumur um hvernig við viljum að hlutirnir fari? Njóttu þess að láta þig dreyma. Þó það rætist ekki nema lítill hluti, þá rætist mögulega meira en ef við leyfðum okkur ekki að dreyma.

Þegar við mótum okkur framtíðarsýn þá fara hjólin að snúast hraðar. Við vitum hvert við erum að fara og verðum spennt fyrir því að komast þangað. Það myndast kraftur innra með okkur.

Stórir draumar

Leyfðu þér að dreyma STÆRRA, leyfðu þér að fara alla leið. Þú finnur fljótt hvað kveikir í þér. Þó svo að allt rætist ekki þá veistu allavega hvað vekur hjá þér spennu. Svo er bara spurning um að útfæra hlutina. Það er mjög mikilvægt að stoppa sig ekki með “raunsæi”, draumar eru nefnilega ekki raunsæir, þeir eru til að kveikja í þér.

5 ára planið

Ekki takmarka þig með því að hugsa um hvað sé mögulega hægt að gera á næstu 5 árum, eða hvað standi mögulega til boða fyrir þig. Leyfðu þér að fara alla leið með draumana þína, hugsaðu að þú hafir nægan tíma, ótakmarkað af peningum og allar þær auðlindir sem þú þarft til að ná þeim.

Hvernig væri lífið þitt ef þú hefðir nægan tíma, nægan pening og aðgang að öllum þeim auðlindum sem þig dreymir um? Hvernig væri lífið þitt ef ÞÚ fengir að skrifa handritið?

Hvað skiptir þig máli

Þú veist hvað skiptir þig máli, hver þín gildi eru. Þú finnur hver þau eru þegar þér finnst brotið á þeim, t.d. ef fjölskyldan skiptir þig máli þá angrar það þig ef samskiptin eru ekki góð og þú leitast við að hafa þau góð. Ef heiðarleiki skiptir þig máli þá truflar þig að vita af óheiðarleika einhverstaðar og þú munt leitast eftir að vera í kringum fólk sem er heiðarlegt, og svo framvegis.

Til að finna út hvað skiptir okkur máli er gott að fara í gegnum lista eins og sést hér að neðan, hann er alls ekki tæmandi heldur ætlaður til að koma okkur á sporið.

Er það…

  • fjölskyldan
  • frami
  • vinnuumhverfið
  • að ferðast
  • vinir
  • iðka áhugamáið
  • heimilið
  • læra meira
  • samstarfsfólk
  • að láta gott af sér leiða
  • að hafa áhrif

…eða er það eitthvað allt annað?

Hegðun okkar segir okkur hvað skiptir okkur í máli

Ef ég vil að eitthvað ákveðið skipti mig máli, þá þarf ég að finna vinkilinn sem vekur hjá mér tilfinningaleg tengsl við að það. Þegar það er komið þá er eftirleikurinn auðveldur, við leitumst við að finna leiðir til að fylgja þessari tilfinningu eftir.

Ef það skiptir okkur máli þá finnum við leið, annars finnum við afsakanir.