Hugurinn er okkar að leiða, en við gleymum því oft og leyfum honum að leiða okkur út um allar trissur. Trixið felst í að vita mátt sinn og æfa sig. Hugurinn er líklegast það eina sem við getum stjórnað í þessu lífi.
Við æfum vöðva okkar og skiljum að við þurfum að gera það til að verða líkamlega sterk. Það sama gildir um hug okkar og ef við æfum hann þá verðum við hugarfarslega sterk.
Fjögur skref að því að leiða hugann
01
Leiddu hugann á einn stað í einu, t.d. með einni af þessum aðferðum
- Fylgstu með andardrætti þínum fara inn í líkamann og útúr líkamanum
- Endurtaktu eitt orð (veldu þér “þitt” orð og segðu engum frá því)
- Endurtaktu setningu (mæli eindregið með að nota uppbyggilega setningu, t.d. “ást er allt sem er”, eða “mér gengur vel í því sem ég tek mér fyrir hendur”)
02
Þar til þú byrjar að temja hugann fer hann sínar eigin leiðir. Þannig að þú þarft að ná í hann þegar þú gleymir þér og hann fer eitthvert annað, svona eins og lítið barn sem er að læra að vera til. Vertu þolinmóð(ur) og njóttu þess að sýna huganum sama umburðarlyndi og skilning og þú myndir sýna barninu sem er að læra á heiminn.
03
Með ástundun kynnist þú huganum þínum, lærir á hann og þú lærir á þig í leiðinni.
04
Áður en þú veist af stjórnar þú huganum, það er hvernig hann túlkar og vinnur úr tilfinningum og áreiti. Æfingin skapar meistarann!