Við veljum okkur það viðhorf sem við iðkum hverju sinni. Oft erum við þó ómeðvituð um viðhorf okkar. Við notum því það viðhorf sem við erum hvað vönust að nota, sem er mögulega viðhorf sem við völdum okkur ómeðvitað.
Við leiðum því ekki endilega hugann að því að við erum að velja, erum frekar vanaföst og gerum fullt af hlutum án þess að átta okkur á því. Það er eðlilegt og virkar á mörgum sviðum.
Valið er alltaf okkar, alveg eins og við veljum hverju við klæðumst, borðum og svo framvegis. Við getum valið viðhorfið sem við förum með út í daginn og inn í aðstæður.
Það getur tekið á að breyta viðhorfum okkar, en það er alls ekki ógerlegt. Að velja sér viðhorf er eins og margt annað, æfing og ástundun. Við getum það öll og þegar virkilega reynir á þá virðist það gerast áreynslulaust.
Fjögur skref til að byrja að æfa sig að velja sér viðhorf
01
Vertu meðvituð(-aður) um að þú hafir val.
02
Veldu hvaða viðhorf þig langar til að vera með í tilteknum aðstæðum. Sjáðu sjálfan þig fyrir þér að iðka það. Upplifðu tilfinninguna sem fylgir því að iðka þetta viðhorf. Er hún góð eða vond? Hvaða tilfinningu viltu upplifa?
03
Byrjaðu að æfa þig.
Dæmi um æfingar
- Það er gott að byrja á atriðum sem snúa að okkur sjálfum þegar við erum að æfa okkur. Til dæmis gagnvart okkur sjálfum þegar okkur verður á. Það getur verið að okkur finnst við eiga að geta eitthvað og ef við getum það ekki verðum við svekkt með okkur sjálf. Þá gefst tækifæri til að æfa sig, sjá það sem sóknarfæri til að bæta sig. Nýtt viðhorf er þá að mistök verða sóknarfæri.
- Annað dæmi gæti verið viðhorf sem við veljum okkur í umferðinni. Við getum gert það með því að setja okkur í spor hinna bílstjóranna og sýna þeim skilning. Nýtt viðhorf er þá að setja sig í spor hinna bílstjóranna.
04
Endurtaktu og æfðu þig aftur og aftur og aftur … !