Hvar er draumurinn?

Þegar að við erum börn þá erum við hvött til að láta okkur dreyma. Við erum hvött til að láta hugann reika og að það eru engar hömlur. Það eru lesin ævintýri fyrir okkur um dýr, fólk og allskonar aðrar verur sem lifa í ótrúlegum heimum og búa yfir hverskonar kröftum. Hringadrottinssaga, Lína Langsokkur, Harry Potter og mörg fleiri ævintýr eru lesin fyrir okkur og svo förum við að lesa þau sjálf. Sumir heillast af ofurhetjum, sem eru „venjulegar“ manneskjur sem breytast í bjargvætti með ofurkrafta þegar á þær er kallað.

Einhverstaðar á leiðinni fara skilaboðin að breytast um hvernig við eigum að hugsa. Það fer að vera „barnalegt“ að láta sig dreyma og það þarf að taka „skynsamlegar“ ákvarðanir um lífið sem framundan er. Sum okkar eru hvött til þess að fara í nám sem muni tryggja okkur framfærslu, óháð því hvort áhugi sé fyrir náminu eða starfinu sem við tekur. Áhersla verður að á tryggja sig á einn eða annan hátt. Draumarnir eiga ekki lengur við, nema sem afþreying og til að fá hlé frá „raunveruleikanum“.

Hvað gerist svo? Mörg okkar ranka við okkur þar sem lífið snýst um að bíða eftir helginni, sumarfríinu eða öðrum fríum. Við ætlum okkur að klára hitt og þetta áður en við getum farið að njóta. Við kaupum okkur hluti til að lyfta okkur upp úr hversdagsleikanum og förum í ferðir til að skemmta okkur. Við reynum á einn eða annan hátt að flýja hversdagsleikann, fá hlé frá honum. Auðvitað er þetta ekki svona hjá öllum, en það eru margir sem finna sig í þessum sporum á einhverjum tímapunkti í lífi sínu.

Af hverju hættum við að láta okkur dreyma? Af hverju lokuðum við þær dyr? Hvers vegna varð ofan á að það væri rétt að vera „skynsamleg“ og taka „réttar“ ákvarðanir til að geta átt í sig og á? Ég segi að óttinn náði okkur, alveg eins og hann náði þeim sem sögðu okkur að hætta að láta okkur dreyma og fara að huga að „alvöru“ málum. Óttinn um að eiga ekki nóg, um að geta ekki séð fyrir sér og sínum. Hann var kannski raunverulegur einu sinni, en hann er það svo sannarlega ekki í dag!

Hvar værum við stödd í dag ef ekki hefði verið fyrir draumóra fólkið sem á undan okkur kom? Ef Martin Luther King hefði ekki sagt „I have a dream…“ þá þætti okkur kannski enn eðlilegt að aðgreina fólk eftir hörundslit. Samferða honum var annað draumóra fólk sem hafði líka trú á sama draumi og þau unnu hörðum höndum að því að láta hann rætast. Þau trúðu, þau áttu sér draum og unnu að því að láta hann rætast. Wright bræður voru taldir ruglaðir þar sem þeir reyndu aftur og aftur að koma einhverskonar vél á loft. Var ekki búið að segja þeim að það væri ekki mönnum ætlað að fljúga, það væri fuglanna? Þeir áttu sér draum, þeir trúðu á hann og unnu að því að láta hann rætast. Þetta eru risa stór dæmi um fólk sem átti sér draum og lét ekki afturhaldssemi annarra draga úr sér.

Við eigum okkur flest, ef ekki öll, einhverskonar draum. Draumar okkar eru af öllum stærðum og gerðum, en eitt eiga þeir sameiginlegt og það er að þeir eru stórir fyrir okkur. Ef draumur okkar myndir rætast þá myndi líf okkar verða það sem okkur dreymir um. Engin draumur er of stór eða of lítill og það er aldrei of seint að byrja.

Hver er þinn draumur? Draumurinn sem þú áttir þér einu sinni, draumurinn sem þú kannski pakkaðir niður á leiðinni af því að hann var „kjánalegur“ eða „óskynsamur“. Allt er kjánalegt og óskynsamlegt þar til það er gert. Áður en þú veit af þá er það hluti af hversdagsleikanum, og verður ástæða þess að hversdagsleikinn er draumi líkast. Þörf okkar fyrir truflun eða hlé frá hversdagleikanum minnkar af því að við þorðum og nú njótum við.

Hver er þinn draumur?