Sóley Kristjánsdóttir

Ég starfa sem þjálfari og stjórnenda- og vinnustaðaráðgjafi hjá Gallup.

Starfsreynsla mín er fjölbreytt, en ég hef starfað sem sviðsmaður, forstöðumaður, mannauðsráðgjafi, mannauðsstjóri og framkvæmdastjóri. Þá hefur ég haldið fjöldan allan af námskeiðum, þjálfað og leiðbeint stjórnendum, sem og einstaklingum sem vilja takast á við nýjar áskoranir.

Menntun

  • Diplóma á meistarastigi í jákvæðri sálfræði
  • Vottaður styrkleikaþjálfari frá Gallup
  • ACC vottaður stjórnendamarkþjálfi
  • MS í mannauðsstjórnun
  • BA í sálfræði

Ég elska að sjá fólk blómstra, sjá það átta sig á hvers það er megnugt og fá aftur kraftinn sinn. Að sjá fólk fylgja draumum sínum af öllu sínu hjarta, sama hversu stórir eða litlir þeir eru. Þess vegna er ég þjálfari, af því að ég elska að sjá fólk ganga vel, fylgja draumum sínum og ná þeim árangri sem skiptir það máli. Þar að auki er ég mjög góð í því að kveikja ljósin hjá fólki, einfaldlega af því að ég elska það. Þar fæ ég kikkið mitt.

Í því felst markþjálfun, að virkja getu og kraft sem þegar býr í okkur á hátt sem virkar fyrir hvern og einn. Fyrir vikið verðum við öflugri og færari í að takast á við verkefnin sem koma inn í líf okkar. Þar að auki veriðum við færari í að velja hvaða verkefni koma inn og hver eiga heima annarsstaðar. Við áttum okkur á að við erum farin að lifa draum okkar, í það minnsta einn þeirra.

Ef þú vilt ögra þér, taka skrefið í átt að draumnum sem hefur alltaf blundað í þér eða var bara að kvikna – þá er það skrefið sem ég skal hjálpa þér að taka. Ég er einkaþjálfarinn sem þú vilt hafa á kantinum í lífinu. Áfram ÞÚ alla leið!

Af hverju markþjálfun?

Ég kynntist markþjálfun sjálf þegar ég var að taka að mér nýtt starf samhliða því að vinna meistara verkefni mitt í mannauðsstjórnun.

Þetta var sumarið 2015. Ég var einhleyp, bjó í kjallaranum hjá mömmu og pabba, vann næturvaktir samhliða námi, var að feta mig á nýjar brautir og að ljúka námi – alls ekki viss um hver næstu skref yrðu. Ekkert af þessu er í sjálfu sér slæmt, en mig langaði í eitthvað meira.

Mér bauðst starf sem ég var mjög spennt fyrir hjá fyrirtæki sem var í vexti. Fyrsta sem ég hugsaði var “það hlýtur að vera einhver annar sem er betri í þessu en ég”. Þessi hugsun vakti mig og ég vissi að ég yrði að ná töku á huga mínum ef ég ætlaði að leyfa sjálfri mér að blómstra, af því að ég vissi að ég væri fullfær vitsmunalega en eitthvað var samt að þvælast fyrir mér innra með mér. Mig vantaði aðstoð við að láta ekki eigin efasemdir draga úr mér og  mér var bent á að þá væri kjörið að fara í samstarf við markþjálfa. Aldrei hefði mig grunað hvað lífið gæti breyst hratt og mikið, enda stóð ég í sömu trú og mörg okkar gera – að það hlutirnir taki langan tíma – en fyrsti markþjálfinn sem ég fór til hristi heldur betur upp í þá heimsmynd mína þegar að hún spurði á móti: “Er það?”.

Í dag veit ég að lengsti tíminn fer í að takast á við sjálfan sig og að hætta að standa í vegi fyrir sjálfum sér þegar að við erum að sækjast eftir þeim árangri sem okkur dreymir um. Lífið kemur á óvart þegar að við hættum að ákveða hvað er hægt og hvað ekki. Hugarfar mitt í dag er: “Ef ég veit hvað ég vil og hvert ég vil fara þá kemst ég þangað”. Það er ótrúlega skemmtilegt viðhorf og hefur komið mér á ýmsa óvænta staði í lífinu. Þegar að draumar mínir eru orðnir að hversdagleikanum þá er komin tími á að uppfæra þá og þá er heldur betur gott að vera í samstarfi við góðan þjálfa sem getur ýtt mér enn lengra en mér óraði fyrir að hægt væri. Sem manneskjur erum við nefnilega ótrúlega öflugar verur, hugur okkar getur farið með okkur hvert sem við viljum. Eina sem við þurfum í raun að vera meðvituð um er hversu öflug við erum þegar að við skerpum fókusinn og tökum ákvörðun. Okkur er í raun allir vegir færir, engin getur stoppað okkur – nema auðvitað við sjálf.

Ég sérhæfi mig í hugarþjálfun og til þess nota ég meðal annars sannreyndar aðferðir úr jákvæða sálfræði, auk aðferðafræði markþjálfunar og styrkleikamiðaða nálgun. Ég hef sterkt innsæi, góða nærveru og hugrekki til að spyrja krefjandi spurninga sem hjálpar fólki að horfa á sig á heiðarlegan og uppbyggilegan hátt. Þannig næst markviss árangur fljótt og örugglega. Ég markþjálfa fólk sem er tilbúið til að skoða hugarfar sitt og nýta það á markvissari hátt. Ég trúi því að allir geti látið drauma sína rætast og náð þeim árangri sem það sækist eftir. Það tekur mislangan tíma að komast þangað og krefst hugrekkis að feta þessa slóð. En það er aldrei of seint að byrja ferðalagið og virkja sinn innri kraft.

Langar þig að vinna með mér? Hafðu samband!