Hvernig geta starfsmannasamtöl orðið skilvirkari verkfæri sem skila raunverulegum árangri fyrir bæði stjórnendur og starfsfólk? Með hvaða hugarfar er æskilegt að fara inn í starfsmannasamtöl og hvernig getur þú mótað hugarfar þitt og annarra markvisst til árangurs?
Fjallað er ítarlega um eftirfarandi
- Hvernig má ná meiri árangri með snerpusamtöl
- Tengsl hugarfars og árangurs
- Markmiðasetning í snerpusamtölum
- Úrvinnsla & eftirfylgni snerpusamtala, hver ber hvaða ábyrgð
- Áhrif tíðra samskipta á starfsanda
Æfingar, með áherslu á
- Innihald hvers samtals og heildarmynd
- Hugarfar og líðan stjórnandans og stafsmanns fyrir, í og eftir samtal
- Að halda sig við sett tímamörk
- Eftirfylgni & úrvinnslu
Ávinningur
Að námskeiði loknu ættu þátttakendur að:
- Þekkja hugmynda- og aðferðarfræði snerpusamtala vel
- Hafa færni til að aðlaga snerpusamtölin að umhverfi starfsmanna
- Geta nýtt snerpusamtal sem skilvirkt mannauðsverkfæri
- Hafa öðlast hæfni til að takast á við starfsmannamál jafnóðum
Um námskeiðið
Á þessu námskeiði er farið yfir hvernig megi á markvissan hátt nota aðferðarfræði svo kallaðra snerpusamtala til að taka árangursrík starfsmannasamtöl. Þannig verða samtölin að skilvirku verkfæri, jafnt fyrir stjórnendur sem og starfsfólk. Snerpusamtöl er aðferðarfræði sem byggir á bók dr. Tim Bakers um nýja nálgun á hefðbundnu frammistöðumati. Aðferðina má aðlaga að því umhverfi sem nota hana á í hverju sinni en samtölin, sem eru stutt og hnitmiðuð, fara að öllu jafna fram nokkrum sinnum yfir árið.
Starfsmannasamtöl eru mikilvægt verkfæri í þróun hvers starfsmanns og eru mikið notuð í íslensku starfsumhverfi. Fjölmargar útgáfur eru til af starfsmannasamtölum og frammistöðumati, en á Íslandi hefur myndast hefð fyrir árlegu starfsmannasamtali. Rannsóknir hafa þó leitt í ljós að upplifun starfsfólks og stjórnenda af þeim er ekki góð og árangur af þeim ekki eins mikill og vonast er til.
Í bók Dr. Tim Baker, “The end of performance reviews”, leggur hann til nýja aðferð fyrir stjórnendur til að skapa tengsl og mynda traust við starfsfólk sitt samhliða því að meta frammistöðu og árangur í starfi. Snerpusamtöl hafa skilað góðum árangri þar sem þau hafa verið innleidd og nýtt, en þau ýta undir bætt samskipti á vinnustað og aukna starfsánægju.
Námskeiðið er ætlað stjórnendum sem hafa mannaforráð. Á námskeiðinu er stuðst við aðferðir markþjálfunar og taka þátttakendur virkan þátt. Námskeiðið er tvö skipti, en það er gert með að leiðarljósi að þátttakendur geti æft sig á milli skipta og verði öruggari í að bæði vinna úr og fylgja samtölunum eftir þegar að því kemur.
Fyrirkomulag
Fjöldi þátttakenda: ákjósanlegur fjöldi er 8-12, en það má ræða og þá stytta / lengja tímaramma
Lengd: 2 skipti, 2,5 klst. í senn (mælt er með að hafa 1-2 vikur á milli)
Um stjórnendaþjálfa
Sóley Kristjánsdóttir er með BA í sálfræði og MS í mannauðsstjórnun frá HÍ, þá er hún einnig ACC vottaður stjórnendamarkþjálfi.
Sóley þekkir vel bæði hefðbundin starfsmannasamtöl og snerpusamtöl. Í meistaraverkefni sínu bar hún saman upplifun starfsfólks og stjórnenda á hefðbundnum starfsmannasamtölum og svo kölluð snerpusamtöl. Þá aðlagaði og innleiddi hún aðferðarfræði snerpusamtala við góðan árangur hjá fyrirtæki þar sem hún starfaði sem mannauðsstjóri.
Stjórnendareynsla Sóleyjar er fjölbreytt en hún hefur starfað sem forstöðumaður, mannauðsstjóri og framkvæmdarstjóri. Samhliða því hefur hún haldið námskeið, markþjálfað og leiðbeint stjórnendum, sem og einstaklingum sem vilja hámarka faglegan og persónulegan árangur sinn.