Mannauðurinn er mikilvægasta auðlind fyrirtækja
Sú auðlind sem getur hvað mest veitt fyrirtækjum forskot fram yfir samkeppnisaðila er mannauðurinn. Starfsmannasamtöl eru mikilvægt verkfæri í þróun hvers starfsmanns og eru mikið notuð í íslensku starfsumhverfi. Það eru til þó nokkrar útgáfur af starfsmannasamtölum / frammistöðumati og getur því verið vandasamt að velja það sem hentar best.
Það sem skiptir máli er að nota verkfæri sem styður við markmið fyrirtækisins, og það er ekki síður mikilvægt að þjálfa stjórnendur í að nota verkfærið á markvissan hátt.
Margar rannsóknir hafa sýnt að upplifun starfsfólks og stjórnenda af starfsmannasamtölum er ekki góð og árangur af þeim ekki eins mikill eins og vonast er til. Að hluta til má leita skýringa í því að þjálfun og innleiðing samtalanna hefur ekki verið nægileg.
Tíð samskipti bæta samskipti
Þrátt fyrir að fólk sé almennt sammála um það þá tíðkast enn sumstaðar að starfsmannasamtöl eða frammistöðumat fari fram 1-2 sinnum á ári. Fyrir vikið verða samtölin formleg, kvíðavaldandi og eitthvað sem þarf að ljúka af. Svona eins og jólaboðið þar sem þú hittir ættingjana sem þú hittir síðast fyrir ári síðan, yfirborðskennt og pínlegt. Tilgangur samtalanna fer algerlega fyrir ofan garð og neðan, og engin(n) nýtur góðs af.
Tíð og regluleg samskipti skapa traust og þar sem traust ríkir líður öllum betur. Fólk veit betur hvað er ætlast til af þeim, það tekst betur á við mál sem upp koma, fjarvistum fækkar og fólk tekur sjálfstæðar ákvarðanir og afkastar meiru.
Skýr markmið og þjálfun
Fyrirtæki þurfa að gera sér grein fyrir hvert marmkið og tilgangur samtalanna sé, og í framhaldi af því að ákveða hvaða verkfæri hentar þeim. Svo þarf að huga vel að innleiðingunni og þjálfun þeirra sem eiga að stýra samtölunum.
Þá skiptir máli að stjórnendur sem taka samtölin fái stuðning, hvort sem það sé í formi starfsmannasamtals við sinn næsta yfirmann eða hjá markþjálfa. Það skiptir máli að stuðningur sé, þannig eru stjórnendur betur í stakk búnir til að nota verkfærið á skilvirkan máta.
Snerpusamtöl
Eitt dæmi um verkfæri sem hefur skilað árangri er svokölluð snerpusamtöl, en þau veita vettvang fyrir regluleg samskipti. Samtölin eru skipulögð formlega en eru upplifuð óformleg sökum þess hversu tíð þau eru. Bætt samskipti verða vegna þessara samtala og skila þau árangri sem starfsmannasamtölin hafa ekki verið að skila hingað til, að því gefnu að stjórnandi hafi þekkingu og hæfni til að stýra þeim.
Að nýta tækifærin sem gefast
Sóknarfæri er í að styðja stjórnendur í að taka góð starfsmannasamtöl og fylgja þeim eftir. Eins og fyrr sagði, þá kemur sá stuðningur til að mynda í gegnum regluleg samtöl, hvort sem er við næsta yfirmann, markþjálfa eða ráðgjafa.
Stjórnandi sem er örugg(ur) í sínu hlutverki getur betur laðað fram það besta hjá sínu starfsfólki. Árangurinn af því að hlúa vel að stjórnendum og starfsfólki er margfaldur fyrir fyrirtæki og skilar sér meðal annars í auknu samkeppnisforskoti.